Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, sem lagði skóna á hilluna í fyrra eftir magnaðan feril með Manchester United, er einn þeirra sem Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United getur hugsað sér að fá sér til aðstoðar fari svo að Carlos Queiroz yfirgefi liðið.
Breska blaðið Manchester Evening News telur sig hafa heimildir fyrir því að Solskjær sé á lista Fergusons en flest bendir til þess að Queiroz taki við þjálfun portúgalska landsliðsins þó svo að Ferguson reyni að fá hann til að skipta um skoðun.
Solskjær er í þjálfarateymi Manchester United og nýtur gríðarlegra vinsælda hjá stuðningsmönnum félagsins og margir þeirra myndu gleðjast að fá Norðmanninn til meiri ábyrgðarstarfa fyrir félagið.