„Bara ansans óheppni“

Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson. AP

Brynjar Björn Gunnarsson, landsliðsmaður hjá Reading í Englandi, meiddist á æfingu með félaginu í fyrradag og segist búast við að verða frá æfingum og keppni í tvo mánuði. „Þetta er bara ansans óheppni að lenda í þessu. Það tognaði liðband innan á öðru hnénu,“ sagði Brynjar Björn sem lék lítið með Reading síðari hluta tímabilsins í fyrra vegna meiðsla.

„Jú, ég fór í aðgerð á nára og hef ekkert leikið með liðinu síðan í janúar. Ég var alltaf að vona að ég næði einhverjum af síðustu leikjunum á tímabilinu en það varð ekkert úr því. Síðan náði ég að hvíla mig ágætlega yfir sumarið og vera í sjúkraþjálfun og var orðinn fínn núna þessa viku til tíu daga sem við erum búnir að æfa hérna,“ sagði Brynjar Björn sem var fastamaður í liði Reading í ensku úrvalsdeildinni fyrri hluta tímabilsins og spilaði alla leiki þess til áramóta.

Hann verður ekki tilbúinn í landsleikina í haust ef landsliðsþjálfarinn hefði not fyrir hann. „Nei, ég verð ekki klár í leikina í ágúst og byrjun september. Byrjun tímabilsins hjá Reading er líka út úr myndinni hjá mér. Þetta er ferlegt og sérstaklega að meiðast svona á æfingu,“ sagði Brynjar í gær.

Íslenska landsliðið mætir Aserbaídsjan hér á landi 20. ágúst í vináttuleik, Norðmönnum ytra 6. september í undankeppni heimsmeistaramótsins og Skotum á Laugardalsvelli 10. sama mánaðar. Um miðjan október verður síðan leikið við Holland ytra í sömu keppni og Makedóníu hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert