Barcelona hyggst gera lokatilboð í Emmanuel Adebayor framherja Arsenal á næstu dögum og að því fram kemur í spænska blaðinu Sport í dag eru Börsungar tilbúnir að láta Arsenal fá sóknarmanninn Samuel Eto'o í skiptum fyrir Tógómanninn og greiða Arsenal 10 milljónir evra að auki, 1,2 milljarða króna.
Það eru fleiri lið en Barcelona sem vilja fá Adebayor því AC Milan hefur mikinn áhuga á að fá Tógmómanninn, sem skoraði 30 mörk fyrir Arsenal á síðustu leiktíð.
Umboðsmaður Adebayors lét hafa eftir sér í gær að Arsenal væri reiðubúið lækka verðmiðann á leikmanninum og var vitnað í Galliani, einn af forkólfum Mílanóliðsins, sem sagðist hafa undir höndum bréf frá Arsenal sem í stóð meðal annars; „Við erum tilbúin að endurskoða verðmiðann á Adebayor ef þið hafið ennþá áhuga á því að kaupa leikmanninn.“