Patrice Evra vinstri bakvörður Englands - og Evrópumeistara Manchester United var í dag ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ósæmilega hegðun eftir ósigur United gegn Chelsea á Stamford Bridge í aprílmánuði í vor.
Evra tók ekki þátt í leiknum en eftir hann lentu nokkrir liðsmenn United í orðaskaki og átökum við vallarstarfsmenn Chelsea og fór Frakkinn þar fremstur í flokki en Evra og nokkrir félagar hans hugðust skokka á vellinum eftir leikinn. Auk Evra var Sam Bethell vallarstarfsmaður Chelsea ákærður.
Þá fékk Rio Ferdinand fyrirliði Manchester-liðsins viðvörun en á leið sinni af vellinum í umræddum leik sparkaði Ferdinand í skilti sem lenti ofan á kvenkyns vallarstarfsmanni. Ferdinand bað konuna afsökunar daginn eftir og sendi henni blómvönd.