Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að portúgalski knattspyrnusnillingurinn Cristian Ronaldo verður um kyrrt hjá félaginu og gangi ekki til liðs við Real Madrid.
Ferguson staðfesti í dag að hafa hitt Ronaldo í Lissabon í Portúgal í síðustu viku en frá því leiktíðinni lauk í maí hefur mikil óvissa ríkt um framtíð Ronaldo hjá Manchester-liðinu og þrálátur orðrómur í gangi að hann væri á leið til Real Madrid.
,,Fundurinn gekk vel og ég get sagt að hann verður í búningi Manchester United á komandi leiktíð. Hann verður ekki seldur,“ sagði Sir Alex á fréttamannafundi í Suður-Afríku í dag en Manchester United hélt í æfingaferð til Suður-Afríku í gær.
„Ég hef verið ansi rólegur yfir öllu þessu. Ég var í fríi og ætlaði mér ekki að láta þessi læti trufla mig í því. Ég hélt ró minni enda er leikmaðurinn samningsbundinn Manchester United og allur rétturinn er félagsins.“
Með þessu vonast Ferguson til að sögusagnir um að Ronaldo sé á förum heyri sögunni til en Skotinn staðfesti að Ronaldo yrði frá næstu þrjá mánuðina vegna aðgerðar á ökkla sem hann gekkst undir á dögunum.