Daniel Levy, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham, er afar ósáttur með vinnubrögð Alex Ferguson, stjóra Manchester United, og Rafael Benítez, stjóra Liverpool. Þeir hafa opinberlega lýst yfir áhuga á að krækja hvor í sinn framherja Tottenham og hefur félagið sent inn formlega kvörtun til ensku úrvalsdeildarinnar vegna þessa.
Ferguson hefur lýst yfir áhuga á að fá Dimitar Berbatov til liðs við sig og haft var eftir honum í breskum fjölmiðlum í dag að United hefði lagt fram tilboð í Búlgarann sem Tottenham hafnaði. Að sama skapi hefur Rafa Benítez lýst yfir áhuga á félaga Berbatov í framlínu Tottenham, Íranum Robbie Keane.
„Tilkynning knattspyrnustjóra Manchester United um að hann hafi lagt fram tilboð í Berbatov og sé vongóður um að fá hann, lýsir hreinum og klárum hroka og afskiptasemi í garð okkar leikmanns,“ sagði Levy á heimasíðu Lundúnaliðsins í dag.
„Þetta er líklega ein versta framkoma knattspyrnustjóra í sögu úrvalsdeildarinnar, og er í raun ótrúleg hræsni í ljósi máls Cristiano Ronaldo og Real Madrid,“ sagði Levy og bætti við að lögð hefði verið inn kvörtun til ensku úrvalsdeildarinnar vegna þessa.
„Benítez hefur einnig sagt svipaða hluti um Robbie Keane og við sendum inn kvörtun vegna Liverpool fyrr í vikunni,“ sagði Levy.
„Berbatov og Keane vilja fara“
„Staða okkar gagnvart leikmönnunum er orðin mjög viðkvæm eftir þetta og sérstaklega í ljósi þess að félögin hafa sannarlega haft samband við leikmennina og umboðsmenn þeirra, án okkar leyfis.
Ég hef engan hug á að selja þessa leikmenn og við höfum ekki samþykkt nein tilboð enn. Leikmenn sem farnir eru að horfa til annarra liða skapa hins vegar slæmt andrúmsloft í búningsklefanum og þannig standa málin með bæði Dimitar og Robbie því þeir hafa lýst yfir áhuga á að fara til félaganna tveggja,“ sagði Levy.