Franska liðið Paris St Germain greindi frá því í morgun að það hafi náð samkomulagi við franska landsliðsmanninn Claude Makelele um ganga til liðs við félagið frá Chelsea og verður hann kynntur til sögunnar hjá félaginu á fréttamannafundi í dag.
Makelele, sem er 35 ára gamall, á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea en þessi mikli vinnuþjarkur á miðsvæðinu kom til Chelsea frá spænska stórliðinu Real Madrid fyrir fimm árum og kostaði Chelsea 16,8 milljónir punda.
Makelele varð tvívegis enskur meistari með Chelsea en hann lék 217 leiki með því og skoraði 2 mörk. Hann á að baki 71 leik með franska landsliðinu en daginn eftir að Frakkar féllu úr leik á EM í síðasta mánuði tilkynnti Makelele að hann væri hættur að spila landsliðnu.