Enskir fjölmiðlar gera því skóna í dag að Mark Hughes knattspyrnustjóri Manchester City sé að undirbúa tilboð í Eið Smára Guðjohnsen og sé reiðubúinn að greiða Barcelona 6 milljónir punda, 940 milljónir króna, fyrir Íslendinginn.
Eiður er með liði Barcelona í Skotlandi en í kvöld leika Börsungar sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu þegar þeir etja kappi við Hibernian í Edinborg. Eiður sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að Josep Guardiola þjálfari Barcelona hafi sagt sér að hann vildi halda honum í herbúðum liðsins en Eiður kvaðst um leið opinn fyrir því að skoða aðra möguleika.
Newcastle, Portsmouth og West Ham eru einnig sögð hafa áhuga á að fá Eið Smára til liðs við sig en Eiður á tvö ár eftir af samningi sínum við Barcelona.