Verstu framherjakaup ensku úrvalsdeildarinnar

El Hadji Diouf skoraði þrjú mörk fyrir Liverpool í 58 …
El Hadji Diouf skoraði þrjú mörk fyrir Liverpool í 58 deildarleikjum. Reuters

Þrír Chelsea-menn og tveir Liverpool-menn eru á lista sem breska dagblaðið The Sun hefur sett saman yfir tíu verstu framherjakaup ensku úrvalsdeildarinnar. Það kemur líklega fáum á óvart að 30 milljón punda kaup Chelsea á Andriy Shevchenko eru þar efst á lista.

Leikmannalistinn fer hér á eftir og eru öll verð í enskum pundum, en til glöggvunar má benda á myntbreytinn á viðskiptasíðu mbl.is. The Sun tók aðeins til skoðunar þá leikmenn sem keyptir voru fyrir 10 milljónir punda eða meira.

10. Jose Antonio Reyes (Arsenal, 10,5 m. punda)

Það er kannski ekki hægt að segja að Reyes hafi staðið sig hræðilega hjá Arsenal en hann stóð engan veginn undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar. Hann skoraði 16 deildarmörk fyrir Arsenal í 69 leikjum og sýndi aldrei þá sóknartilburði sem einkenna stórstjörnur. Spánverjanum gekk þó betur en hjá núverandi félagi sínu, Atlético Madrid, þar sem hann skoraði ekki eitt einasta mark í 26 deildarleikjum síðasta vetur.

9. Djibril Cissé (Liverpool, 14 m. punda)

Liverpool-menn vonuðust eftir nýjum Michael Owen með kaupunum á Cissé frá Auxerre en sú varð aldrei raunin. Cissé varð reyndar fyrir því áfalli að fótbrotna illa eftir 19 leiki fyrir Liverpool, en heill heilsu var hann síður en svo sá markaskorari sem vonast var eftir. Eftir 13 mörk í 49 deildarleikjum var Cissé lánaður og síðar seldur til Marseille þar sem honum hefur gengið ívið betur.

8. Darren Bent (Tottenham, 17 m. punda)

Það ráku margir upp stór augu þegar Lundúnaliðið brá á það ráð fyrir síðasta tímabil að bæta enn við öfluga sóknarlínu sína með kaupum á Bent fyrir svo mikið fé. Hann skoraði aðeins sex mörk í 27 leikjum og þarf að sýna meira á næstu leiktíð til að réttlæta verðmiðann.

7. Adrian Mutu (Chelsea, 16 m. punda)

Ein fyrstu kaup Chelsea eftir að Roman Abramovich keypti félagið. Hann skoraði tíu mörk í 38 deildarleikjum en kannski er ekki hægt að ætlast til meira af manni sem varð uppvís af kókaínneyslu. Hann hefur fengið uppreisn æru hjá Fiorentina þar sem hann skorar að meðaltali í öðrum hverjum leik.

6.Steve Marlet (Fulham, 11,5 m. punda)

Marlet hafði staðið sig ágætlega hjá Lyon þegar litla Lundúnafélagið ákvað að kaupa hann fyrir metupphæð. Upphæð sem Fulham-menn gráta eflaust enn því Marlet skoraði aðeins 11 mörk í 54 deildarleikjum. Þá er betra að fá Heiðar Helguson fyrir rúmlega eina milljón punda.

5. Sergei Rebrov (Tottenham, 11 m. punda)

Það er kaldhæðnislegt að Rebrov og Shevchenko skuli báðir vera á þessum lista í ljósi árangurs þeirra með Dynamo Kiev á tíunda áratugnum. Stuðningsmenn Tottenham fögnuðu komu Úkraínumannsins en hann stóð engan veginn undir væntingum og skoraði 10 mörk í 60 deildarleikjum.

4. Chris Sutton (Chelsea, 10 m. punda)

Upphæðin sem Chelsea greiddi fyrir Sutton er sérstaklega há í ljósi þess að hann var keyptur fyrir níu árum síðan, eða árið 1999. Sutton hafði heldur betur sannað sig hjá Blackburn en skoraði aðeins eitt mark í 28 deildarleikjum fyrir Chelsea, ótrúlegt en satt.

3. El Hadji Diouf (Liverpool, 10 m. punda)

Framherjaleit Liverpool bar loks árangur í fyrra þegar félagið festi kaup á markamaskínunni Fernando Torres, en fram að því hafði félagið fengið til sín öllu lélegri leikmenn á borð við Diouf. Senegalinn hafði staðið sig vel á HM 2002 en náði sér aldrei á strik hjá Liverpool og skoraði þrjú mörk í 58 deildarleikjum. Hans er því líklega ekki sárt saknað á Anfield.

2. Albert Luque (Newcastle, 10 m. punda)

Newcastle hefur fest kaup á lélegum leikmönnum á borð við Jean-Alain Boumsong, Stéphane Guivarc'h, og Marcelino, en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Luque hefur hælana ef svo má segja. Honum tókst þó að skora eitt mark í 20 deildarleikjum.

1. Andriy Shevchenko (Chelsea, 30 m. punda)

Hann er kannski ekki lélegasti framherjinn á þessum lista en hann er dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Níu mörk í 47 deildarleikjum eru að sjálfsögðu langt frá því að vera nóg til að réttlæta kaupin, og Shevchenko virðist hafa gleymt flestöllu því sem hann sýndi hjá AC Milan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert