Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester United hefur efasemdir um að Chelsea blandi sér í titilbaráttuna á komandi leiktíð og telur ástæðuna þá að og margir leikmenn liðsins séu farnir að reskjast. Hann reiknar með að Arsenal og Liverpool verði aðalkeppinautar sinna manna.
„Það býr mikil reynsla í Chelsea-liðinu en ég sé ekki fyrir mér stórkostlegar framfarir hjá liði þar sem meðalaldurinn er 30 ár. Ég reikna með meiru frá Arsenal og Liverpool. Arsenal var óheppið á síðustu leiktíð en lenti í meiðslum á erfiðum tíma, í febrúar, þar sem margir miðjumenn liðsins heltust úr leik,“ sagði Ferguson við fréttamenn í Suður-Afríku þar sem Manchester United er í æfinga- og keppnisferð.
Nýr maður er í brúnni hjá Chelsea, Luiz Felipe Scolari, og liðið hefur fengið portúgölsku landsliðsmennina Jose Bosingwa og Deco til liðs við sig í sumar.
„Avram Grant gerði það gott hjá Chelsea og sömuleiðis Mourinho sem vann titilinn með Chelsea tvö ár í röð og vann okkur í bikarúrslitaleik. Það er enginn sem ég tel að geti leikið þetta eftir Mourinho með Chelsea-liðið,“ sagði Ferguson.