Chelsea lagði kínverska knattspyrnuliðið Guangzhou Pharmaceutical að velli í æfingaleik í dag, 4:0, í fyrsta leik þeirra bláklæddu undir stjórn Felipe Scolari. Salomon Kalou, Frank Lampard, Shaun Wright Phillips og argentíski táningurinn Franco Di Santo skoruðu mörkin.
Scolari leyfði mörgum leikmönnum að spreyta sig í þessum æfingaleik og stillti upp sóknarsinnuðu liði með Ashley Cole og nýliðann José Bosingwa sem bakverði. Bosingwa varð hins vegar að fara af leikvelli eftir tæplega 20 mínútur vegna meiðsla.
Landi Bosingwa, Portúgalinn Deco, lék einnig sinn fyrsta leik í bláa búningnum og stóð sig vel, líkt og hinn nítján ára gamli Franco Di Santo sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðallið Chelsea. Þá spilaði Serbinn Branislav Ivanovic einnig sínar fyrstu mínútur fyrir Chelsea en hann lék í stöðu hægri bakvarðar síðasta hálftímann.
Lið Chelsea:
Fyrri hálfleikur: (4-4-2) Cech - Bosingwa (Ferreira 19.), Carvalho, Terry (fyrirliði), A Cole - Mikel, Essien, Deco, Lampard - Kalou, Anelka.
Seinni hálfleikur: (4-3-3) Cudicini - Ferreira, Alex, Carvalho, Bridge - Lampard, Mikel, Deco (Ivanovic 62.) - Kalou (Wright-Phillips 57.), Di Santo, Malouda.