Flugvél sem flutti Hermann Hreiðarsson og félaga í enska knattspyrnuliðinu Portsmouth til Nígeríu í gær varð að hætta við lendingu í Abuja á síðustu stundu.
Flugstjóri vélarinnar hóf vélina á loft á ný, rétt áður en hún átti að lenda, og hringsólaði síðan yfir flugvellinum í Abuja í hálftíma, við erfið veðurskilyrði.
„Við vorum allir skelkaðir því enginn vissi hvað var um að vera. Það hafði ekki komið nein viðvörun. En flugstjórinn á heiður skilinn því hann skýrði málin fljótt fyrir okkur og sagði að hann hefði ekki náð tilskyldu sambandi við flugturninn og því tekið þá ákvörðun að hætta við lendingu. Eftir hálftíma hringsól í þrumum og eldingum náði hann síðan að lenda með okkur heilu og höldnu," sagði Linvoy Primus, leikmaður Portsmouth, á vef félagsins.
Portsmouth mætir heimaliðinu Kano Pillars í dag og leikur síðan sýningarleik gegn Englands- og Evrópumeisturum Manchester United á morgun. Lið United spilar í Suður-Afríku í dag og kemur síðan beint til Nígeríu.