Enski knattspyrnumaðurinn Joey Barton losnar úr fangelsi í næstu viku og Kevin Keegan, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að hann muni gefa honum nýtt tækifæri til að sýna sig og sanna hjá félaginu.
Barton var dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar eftir líkamsárás í miðborg Liverpool um síðustu jól en hann hefur verið viðloðandi ýmis vafasöm atvik á stormasömum ferli sínum. Fyrr í sumar fékk hann síðan fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að ráðast á þáverandi samherja sinn hjá Manchester City, Ousmane Dabo, á síðasta ári.
„Fólk hefur ýmsar skoðanir á þessu sem maður verður að virða, en mín skoðun er sú að hann eigi að fá nýtt tækifæri og stuðning. Hann þarf að kippa ýmsum hlutum í lag, en ég tel að hann geti gert það," sagði Keegan við BBC í dag.
„Joey verður kominn til okkar fyrir mánaðamótin. Öll hans vandamál eru kunn en ég vissi um þau þegar ég tók við starfinu. Hann hefur tekið út sinn dóm, honum hefur verið refsað fyrir misgjörðir sínar. Fullt af fólki hefur fengið annað tækifæri í lífinu og nýtt það til fullnustu. Ég sagði við Joey að svo framarlega sem hann stæði sig og næði að endurvekja tiltrú fólks á sér, myndi ég styðja við bakið á honum. Vonandi tekst okkur að koma honum í góða æfingu á ný en síðan eru málin í hans eigin höndum," sagði Keegan.
Joey Barton er 25 ára miðjumaður og hefur spilað einn A-landsleik fyrir England. Hann lék með Manchester City frá 2002 til 2007 en gekk þá til liðs við Newcastle.