Scolari setur stefnuna á fjóra titla

Luiz Felipe Scolari ræðir málin í Malasíu.
Luiz Felipe Scolari ræðir málin í Malasíu. Reuters

Luiz Felipe Scolari, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, sagði á blaðamannafundi í Malasíu í morgun að hann hefði sett stefnuna á að vinna alla þá fjóra titla með félaginu sem í boði væru á komandi keppnistímabili.

Scolari er á ferðalagi um Asíu með lið sitt sem hefur unnið tvo leiki í Kína af öryggi, 4:0 og 7:0, og mætir úrvalsliði í Malasíu á morgun. Þaðan er ferðinni heitið til Rússlands.

„Við tökum þátt í fjórum mótum í vetur og ég mun reyna að vinna þau öll. Það verður mjög erfitt en ég hef liðið og leikmennina til að ná því markmiði. Ég hef líka fengið allt sem ég þarfnast til þess hjá Chelsea," sagði Scolari hinn brasilíski sem hætti með portúgalska landsliðið í sumar og flutti sig um set til Englands.

„Ég mun reyna að auka sjálfstraust leikmanna liðsins. Stundum gera þeir mistök en ég segi þeim að það sé eðlilegt, svo framarlega sem þeir leggja hart að sér. Ef þeir gera sitt besta, eru önnur vandamál á mínum herðum," sagði Scolari og kvaðst ánægður með Asíuförina til þessa.

„Ég hef áttað mig á því hverjir lykilmenn liðsins eru. Ég hef dvalið með þeim í 15 daga og veit hverjir þurfa að spila meira en aðrir. Maður verður að byggja liðið í kringum nokkra leikmenn í lykilstöðum og nú veit ég hverjir þeir eru. Ég er búinn að stilla upp í huganum liðinu sem mætir Portsmouth í fyrstu umferð en það ræðst síðan endanlega af því hvernig leikmennirnir standa sig á æfingum," sagði knattspyrnustjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert