FH dróst nú áðan gegn stórliði Aston Villa í 2. umferð UEFA-bikarsins. Enska úrvalsdeildaliðið er það sterkasta sem FH gat mætt en fyrir dráttinn var ljóst að Hafnfirðingar gætu dregist gegn Aston Villa, Rennes, FC Köbenhavn, Bröndby eða Elfsborg.
Fyrri leikurinn fer fram á Íslandi 14. ágúst og sá seinni í Birmingham tveimur vikum síðar.
Aston Villa endaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og vann sér þar með inn þátttökurétt í Intertoto-keppninni. Þar kom liðið inn í 3. umferð og vann danska liðið OB 3:2 samanlagt í tveimur leikjum, og vann sér þar með inn þátttökurétt í forkeppni UEFA-bikarsins.
FH vann Grevenmacher frá Lúxemborg 8:3 samanlagt í tveimur leikjum í 1. umferð forkeppninnar.