Enskir fjölmiðlar fullyrða margir hverjir í dag að ensku bikarmeistararnir Portsmouth séu í þann veginn að kaupa enska landsliðsbakvörðinn Nicky Shorey af Reading. Gangi það eftir, er stöðu Hermanns Hreiðarssonar í liði Portsmouth verulega ógnað en báðir spila þeir stöðu vinstri bakvarðar.
Shorey hefur verið lykilmaður í liði Reading í úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár, og spilað með liðinu í sjö ár, og hefur þótt einn skemmtilegasti bakvörðurinn í deildinni. Hann er mjög sókndjarfur og hefur lagt upp fjölda marka fyrir liðið. Shorey, sem er 27 ára gamall, vann sér sæti í enska landsliðshópnum í fyrra og hefur spilað tvo A-landsleiki.
Steve Coppell, knattspyrnustjóri Reading, hefur staðfest að það séu allar líkur á að Shorey yfirgefi félagið til að leika áfram í úrvalsdeildinni.
Hermann hefur verið fyrsti valkostur í stöðu vinstri bakvarðar hjá Portsmouth en hann hefur einnig af og til leikið sem miðvörður hjá liðinu.