Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að meiðslin sem Steven Gerrard, fyrirliði liðsins, varð fyrir í gærkvöld séu ekki alvarleg og hann gæti jafnvel náð leiknum gegn Standard Liege í forkeppni Meistaradeildarinnar í næstu viku.
Gerrard haltraði af velli eftir 25 mínútna leik þegar Liverpool vann Vålerenga, 4:1, í æfingaleik í Ósló. Talið var að um nárameiðsli væri að ræða en í ljós kom að hann hafði tognað í læri.
„Við verðum að bíða og sjá, þetta gæti tekið viku eða svo," sagði Benítez á vef Liverpool, en hann var ánægður með sína menn í gærkvöld. Þeir skoruðu fjögur mörk annan leikinn í röð en Liverpool malaði Rangers, 4:0, í Glasgow á dögunum.
Liverpool tekur á móti ítalska liðinu Lazio á föstudaginn, í síðasta leik sínum á undirbúningstímabilinu