Rétt í þessu var tilkynnt að enska knattspyrnufélagið Fulham hefði fest kaup á enska landsliðsframherjanum Andy Johnson frá Everton fyrir 10,5 milljónir punda.
Viðræðurnar hafa staðið í nokkurn tíma og nú er málið endanlega í höfn. Andy Johnson er 27 ára gamall og hefur spilað með Everton undanfarin tvö ár en félagið keypti hann af Crystal Palace þar sem hann lék í fjögur ár.
Johnson hefur leikið 8 landsleiki fyrir Englands hönd og bætist í stóran hóp nýrra leikmanna hjá Fulham en Roy Hodgson knattspyrnustjóri og Mohammed Al Fayed eigandi félagsins hafa verið iðnir við að styrkja liðið í sumar.