Hughes: Ég er ekki á förum

Mark Hughes er ekki á förum frá Manchester City, enda …
Mark Hughes er ekki á förum frá Manchester City, enda nýtekinn við. Reuters

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að ekkert sé til í ítrekuðum fregnum breskra fjölmiðla í gær um að hann sé á leið frá félaginu eftir aðeins þrjá mánuði í starfi.

Talsverð óvissa hefur verið í málefnum félagsins eftir að handtökuskipun var gefin út á eiganda City, Thaksin Shinawatra, í heimalandi hans, Tælandi. Hún var gefin út eftir að hann mætti ekki til réttarhalds í Bangkok, en þar er hann sakaður um spillingu og misbeitingu valds.

Í framhaldi af því hefur verið fullyrt að Hughes íhugi að segja starfi sínu lausu vegna óvissu um stöðu sína gagn vart leikmannakaupum.

„Það hafa verið alls konar sögusagnir í gangi en ég er ekki á förum eitt eða neitt. Hér hef ég verk að vinna og hlakka til að takast á við það," sagði Hughes á vef Manchester City. Hann tók við liðinu í vor þegar Sven-Göran Eriksson var sagt upp störfum.

Garry Cook, framkvæmdastjóri City, hefur ítrekað að Thaksin, eigandi félagsins, ætli sér að standa að fullu við þá tíu ára áætlun sem hann hafi sett upp þar á bæ. Thaksin, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Tælands, hefur sótt um hæli í Bretlandi en þangað kom hann á sunnudag eftir að hafa verið viðstaddur setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert