FH-Aston Villa: Laursen varar sína menn við

Spilar Gareth Barry í kvöld? Hér er hann á æfingu …
Spilar Gareth Barry í kvöld? Hér er hann á æfingu Aston Villa-liðsins á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Ómar Óskarsson

Danski miðvörðurinn Martin Laursen segir að aðeins rangt hugarfar leikmanna Aston Villa geti komið í veg fyrir sigur á móti FH og farseðil í riðlakeppni UEFA-bikarsins. Laursen verður fyrirliði Aston Villa í leiknum í kvöld en þessi öflugi varnarmaður varð Evrópumeistari með AC Milan fyrir fimm árum.

Laursen, sem er einn fárra leikmanna í liði Aston Villa sem hefur reynslu í Evrópukeppni, segir að FH-ingar geti vel valdið Aston Villa liðinu vandræðum taki leikmenn Villa leikinn ekki alvarlega og beri virðingu fyrir andstæðingunum.

,,Þetta var góður dráttur og möguleikarnir eru góðir að komast áfram en við verðum að nálgast verkefnið á faglegan hátt. Einn slæmur dagur og við verðum ekki nægilega vel einbeittir getur alveg orðið til þess að við töpum leiknum. Við verðum því að varkárir og taka leikinn mjög alvarlega. Við gerðum það á móti Odense og þannig verðum við alltaf að gera.

Ég vil helst ekki ræða um hugarfar því við erum allir atvinnumenn og fáum mikla peninga fyrir að spila fótbolta. Við verðum að mæta til leiks í öllum leikjum með rétt hugarfar. Það er engin afsökun að vera ekki með það til staðar,“ segir Laursen sem skoraði annað af mörkum Aston Villa í 2:2 jafntefli gegn danska liðinu Odense í 3. umferð Intertoto-keppninnar en Aston Villa hafði betur samanlagt, 3:2, og vann sér þar með keppnisréttinn í UEFA-bikarnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert