Heimir Guðjónsson: Fyrstu 20 mínúturnar mjög mikilvægar

Tommy Nilesen fær örugglega nóg að gera í vörn FH …
Tommy Nilesen fær örugglega nóg að gera í vörn FH gegn Aston Villa í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH-ingar leika í kvöld sinn 29. Evrópuleik frá upphafi þegar þeir etja kappi við enska úrvalsdeildarliðið Aston Villa í UEFA-bikarnum á Laugardalsvellinum í kvöld. Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga segist vonast til þess að lærisveinar sínir nái að stríða enska úrvalsdeildarliðinu en Aston Villa komst í UEFA-bikarinn með því að slá danska liðið Odense út í 3. umfer Intertoto-keppninnar, samanlagt, 3:2.

,,Við gerum okkur alveg grein fyrir því að Aston Villa er með mjög sterkt lið. Leikmenn liðsins eru líkamlega sterkir, þeir eru hættulegir í hornspyrnum og föstum leikatriðum og eru með afar fljóta sóknarmenn. Við verðum að vera á varðbergi gagnvart þessu,“ sagði Heimir við mbl.is.

Varnarmaðurinn Freyr Bjarnason kemur inn í leikmannahópinn að nýju eftir meiðsli en sóknarmaðurinn Atli Viðar Björnsson er á sjúkralistanum og spilar ekki í kvöld en hann vonast til að geta verið með í seinni leiknum á Villa Park.

Verðum að geta haldið boltanum

Heimir segir að mótherjinn kalli auðvitað á breytt leikskipulag en FH-ingar hafa verið á góðu skriði síðustu vikurnar og léku afar vel um síðustu helgi þegar þeir lögðu KR-inga í Frostaskjólinu.

,,Við komum alveg örugglega ekki til að pressa þá langt fram á völlinn heldur munum við leggja höfuðáherslu á varnarleikinn. Samt sem áður verðum við á einhverjum tímapunkti að geta haldið boltanum innan liðsins og reyna að sækja þegar færi gefst. Fyrstu 20 mínúturnar verða mjög mikilvægar. Ef við náum að standast áhlaup Aston Villa á þessum tíma þá mun það efla okkur,“ sagði Heimir.

Spurður hvort hann búist við því að Aston Villa pressi leikmenn FH langt fram á völlinn sagði Heimir; ,,Já mér finnst það mjög líklegt. Þeir leikir sem maður hefur séð í ensku úrvalsdeildinni með Aston Villa er uppleggið hjá þeim mjög svipað hvort sem það er á heimavelli eða útivelli. Það er fljölbreytni í sóknarleik Aston Villa. Það er öskufljótir leikmenn eins og Ashley Young og Gabriel Agbonlahor í framlínunni og svo er þeir með John Carew sem er mjög sterkur í loftinu og heldur boltanum vel. Það er því ljóst að varnarmenn okkar verða að vera vel vakandi,“ sagði Heimir.

,,Strákarnir vilja sjá hvar þeir standa gegn svona liði. Ég fann það á æfingunni áðan að það er gríðarlegur spenningur hjá mannskapnum að takast á við þennan leik og ég ætla rétt að vona að við náum að sýna okkar bestu hliðar.“

Leikurinn hefst klukkan 18 á Laugardalsvellinum og fer hver að verða síðustur að næla sér í miða en um hádegisbilið voru innan við 1000 miðar eftir að Laugardalsvöllurinn tekur 9.800 áhorfendur í sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert