O’Neill: Fyrst og fremst ánægður með sigurinn

Martin O'Neill, stjóri Aston Villa.
Martin O'Neill, stjóri Aston Villa. Reuters

„ÉG er fyrst og fremst ánægður með sannfærandi sigur því ég var ekki alveg í rónni fyrir leikinn,“ sagði Martin O’Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa á blaðamannafundi eftir sigurinn, 4:1, á FH á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við unnum á sannfærandi hátt en FH-liðið veitt okkur verðuga keppni
frá fyrstu mínútu. Liðið lagði ekki árar í bát þrátt fyrir að hafa fengið á
sig tvö mörk snemma leika heldur hélt það skipulagi sínu, lék sinn leik
og tókst að halda okkur á tánum. Mark FH-liðsins var gott og verðskuldað því FH-liðið hafði ógnað okkur nokkrum sinnum áður en markið var gert,“ sagði O’Neill, sem  lauk lofsorði á framgöngu FH-liðsins sem hann sagði hafa verið til fyrirmyndar. Það hafi leikið sinn leik og spilað líkt og það gerði í síðustu viðureign sinni í Landsbankadeildinni. 

O’Neill sagðist reikna með að stilla upp sterku liði í síðari leiknum þrátt fyrir sannfærandi sigur í kvöld og góða forystu. „Við megum ekki við því að sýna kæruleysi og eiga á hættu að missa niður gott forskot.“

O’Neill sagði það hafa verið ákvörðun Gartehs Barry að taka þátt í leiknum í kvöld en mikið hefur verið rætt og ritað um hugsanleg vistaskipti hans til Liverpool. Með þátttöku sinni í leiknum í kvöld er ljóst að hann getur ekki leikið með Liverpool í fyrsta hluta Meistaradeildar Evrópu verði af kaupum Liverpool á kappanum áður en skiptiglugganum verður lokað um næstu mánaðarmót. „Barry veit hvaða afleiðingar þátttaka hans í leiknum getur haft en hann vildi endilega spila, það var ekkert sem gat haldið aftur af honum í þeim efnum," sagði O’Neill.

Ítarlegra viðtal við O’Neill verður í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert