Engin frekari forföll hafa orðið í enska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir vináttulandsleikinn gegn Tékkum sem fram fer á miðvikudagskvöldið. Aðeins Jonathan Woodgate, miðvörður Tottenham, gat ekki æft í dag en hann verður tilbúinn í leikinn.
Woodgate var látinn taka því rólega þar sem hann á talsverða meiðslasögu að baki og æfir í samræmi við það.
Michael Carrick dró sig útúr hópnum á sunnudaginn og Jermaine Jenas kom í hans stað.
Fabio Capello valdi sóknarmennina Wayne Rooney, Jermain Defoe, Theo Walcott og Emile Heskey í hópinn en hvorki Peter Crouch né Darren Bent eins og búist hafði verið við.
Capello sagði að aðrir leikmenn í liðinu yrðu að létta á sóknarmönnunum og skora mörk inná milli. „Leikstíllinn verður að breytast, það verða fleiri að skora. Það eiga öll landslið í vandræðum með framlínuna um þessar mundir. Fernando Torres er eini frábæri framherjinn í heiminum í dag en hjá öðrum landsliðum en því spænska eru bara þokkalegir framherjar," sagði Capello við fréttamenn í dag.