John Terry, fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, hefur verið valinn fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu og mun hann gegna því hlutverki til lengri tíma. Þjálfarinn Fabio Capello tók sér langan tíma í að velja fyrirliða en að lokum stóð baráttan milli Terry og Rio Ferdinand, leikmanns Manchester United.
Terry varð fyrirliði enskra í stjórnartíð Steve McClaren eftir að David Beckham var tekinn út úr hópnum um tíma. Þegar Capello tók við ákvað hann hins vegar að leyfa nokkrum leikmönnum að prófa fyrirliðabandið og þar á meðal voru Beckham og Steven Gerrard fyrirliði Liverpool. Ferdinand og Terry þóttu hins vegar alltaf líklegastir.
Ferdinand verður varafyrirliði Englands.
Næsti leikur Englands verður við Tékkland á þjóðarleikvanginum Wembley á morgun, miðvikudag.