Enska knattspyrnuliðið Arsenal hefur gengið frá kaupum á franska varnarmanninum Mikael Silvestre frá Manchester United. Silvestre hefur verið í herbúðum United frá því árið 1999 og leikið við góðan orðstír. Undir það síðasta átti Silvestre þó ekki upp á pallborðið hjá Sir Alex Ferguson þegar kom að því að velja lið sitt og því fór að Silvestre var nú í dag seldur til Arsenal.
Kaupverðið er ekki gefið upp á Frakkanum, sem er 31 árs gamall og á að baki 40 landsleiki fyrir landslið Frakklands. Hann hefur þó ekki leikið fyrir landsliðið síðan árið 2006. Hann verður þó með reynslumeiri leikmönnum hjá ungu liði Arsenal.