"Þetta var frábær endir á leiknum og afar dýrmætt fyrir okkur að ná að knýja fram sigur á þennan hátt," sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir afar nauman sigur hans manna á Middlesbrough, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Útlitið var ekki gott hjá Liverpool því Middlesbrough komst yfir á Anfield seint í leiknum með marki frá Mido. Emmanuel Pogatetz sendi boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf frá Jamie Carragher og jafnaði, 1:1. Það var svo fyrirliðinn Steven Gerrard sem skoraði sigurmark Liverpool í uppbótartíma.
„Mínir menn sýndu mikla baráttugleði og einbeitingu og þetta er mun betra en í fyrra. Þá gerðum við mörg jafntefli í svona leikjum. Núna höfum við ekki spilað sérlega vel í fyrstu tveimur leikjunum, en við höfum náð að vinna og erum með 6 stig. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að halda áfram á sigurbraut og þá getum við talað um fótboltann og ekkert annað," sagði Benítez við Sky Sports.
Hann var sérstaklega ánægður með Gerrard sem lék þrátt fyrir meiðsli. "Hann hefur glímt við meiðsli í tíu daga og vantar nokkuð uppá að vera í toppæfingu, en hann hefur þessa hæfileika og getur skorað mikilvæg mörk," sagði Benítez.