Fjögur Íslendingalið voru á ferðinni í ensku knattspyrnunni í dag og vegnaði illa. Þrjú þeirra töpuðu og eitt náði jafntefli.
Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Bolton sem tapaði, 1:0, fyrir Newcastle í úrvalsdeildinni. Bolton er með 3 stig eftir 2 umferðir.
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Coventry sem steinlá heima, 0:3, gegn Bristol City í 1. deild. Coventry hafði unnið tvo fyrstu leiki sína og er með 6 stig eftir 3 umferðir.
Ívar Ingimarsson lék allan leikinn með Reading sem tapaði, 4:2, fyrir Charlton á útivelli. Reading er með 4 stig eftir 3 leiki. Brynjar Björn Gunnarsson er frá vegna meiðsla og Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Reading.
Jóhannes Karl Guðjónsson kom inná sem varamaður hjá Burnley korteri fyrir leikslok þegar liðið gerði 0:0 jafntefli við Crystal Palace á útivelli. Þetta var fyrsta stig Burnley sem er næstneðst í 1. deild með eitt stig.
Portsmouth, lið Hermanns Hreiðarssonar, tekur á móti Manchester United í úrvalsdeildinni á mánudagskvöldið.