Missir Hermann sætið til Traore?

Hermann Hreiðarsson er með harðan keppinaut um stöðu vinstri bakvarðar.
Hermann Hreiðarsson er með harðan keppinaut um stöðu vinstri bakvarðar. Reuters

Bikarmeistarar Portsmouth taka á móti Englandsmeisturum Manchester United í síðasta leik 2. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Blikur eru á lofti um hvort Hermann Hreiðarsson haldi sæti sínu í byrjunarliði Portsmouth.

Harry Redknapp knattspyrnustjóri Portsmouth fékk fyrir helgina vinstri bakvörðinn Armand Traore lánaðan frá Arsenal út þetta tímabil og gæti hæglega sett hann beint í stöðuna í kvöld, og Hermann þar með á bekkinn.

„Það er frábært að hafa fengið Traore að láni. Sex önnur úrvalsdeildarlið vildu fá hann og gerðu öll tilboð en hann vildi koma til okkar. Hann er frábært efni og eina ástæðan fyrir því að hann er ekki fastamaður í liði Arsenal er sú að þeir eru með Gael Clichy, sem er frábær ungur vinstri bakvörður. Ég er viss um að Traore á eftir að verða franskur landsliðsmaður í fremstu röð," sagði Redknapp á vef Portsmouth í dag.

Redknapp er mjög óánægður með byrjun Portsmouth á tímabilinu en liðið steinlá gegn Chelsea, 4:0, í fyrstu umferðinni. „Við verðum að leggja afar hart að okkur, meira en mótherjarnir, því það er eina leiðin til að sigra Manchester United. Ef menn halda að við getum farið út á völlinn og yfirspilað þessi lið, þá vakna þeir fljótt upp við vondan draum. Við þurfum að vera vinnusamari. Það gerðum við ekki gegn Chelsea um síðustu helgi og þessvegna steinlágum við. Menn töluðu um stórkostlegan fótbolta hjá Chelseamönnum en þeir voru líka baráttuglaðari en við alls staðar á vellinum," sagði Redknapp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert