Úkraínski sóknarmaðurinn Andriy Shevchenko stóðst læknisskoðun hjá AC Milan nú síðdegis og er þar með orðinn liðsmaður Mílanóliðsins á nýjan leik. Shevchenko yfirgaf AC Milan fyrir tveimur árum og gekk í raðir Chelsea sem borgaði 30 milljónir punda fyrir leikmanninn.
„Ég er svo ánægður að vera kominn til félagins. Þetta er bara eins og að vinna Meistaradeildina. Ég vil samt nota tækifærið og þakka þeim stuðningsmönnum Chelsea sem studdu við bakið á mér,“ sagði Shevchenko í viðtali við ítölsku fréttastofuna ANSA í dag.
Shevchenko er guða tölu hjá mörgum stuðningsmönnum AC Milan en hann skoraði 127 mörk í 208 leikjum með liðinu þau sjö ár sem hann lék með því. Honum gekk ekki sem skildi hjá Chelsea og náði aðeins að skora 9 mörk í 47 leikjum með því.
Keppni í ítölsku A-deildinni hefst um næstu helgi og mætir AC Milan liði Bologna í 1. umferðinni.