Benitez: „Meistaradeildin breytir ekki mínum plönum“

Rafa Benitez virðist ætla að fá einn leikmann í viðbót …
Rafa Benitez virðist ætla að fá einn leikmann í viðbót til Liverpool fyrir mánaðamót. Reuters

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool segir að það kæmi engu til með að breyta varðandi fyrirhuguð leikmannakaup hans áður en félagaskiptaglugganum lokar um mánaðamótin, þótt Liverpool félli úr leik í Meistaradeild Evrópu annað kvöld. Liverpool leikur þá við Standard Liege frá Belgíu í síðari leik liðanna um að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Lauk fyrri viðureign liðanna með markalausu jafntefli og Liverpool í raun stálheppið að ná jafntefli því Jose Reina, markvörður liðsins varði meðal annars vítaspyrnu í leiknum.

Spánverjinn Albert Riera og Garreth Barry hjá Aston Villa hafa statt og stöðugt verið orðaðir við Liverpool en ekkert er vitað með vissu hvaða leikmaður eða leikmenn það verða sem ganga til liðs við Liverpool áður en lokað verður fyrir félagaskipti um mánaðamótin. Benitez hefur þó gefið í skyn að hann sé ekki búinn að loka buddunni ennþá.

„Það breytir engu hvort við komumst í Meistaradeildina eða ekki. Auðvitað verðum við af heilmiklum peningum, en það er svo stutt í að félagaskiptaglugganum loki að ég held mig við mín plön sama hvað gerist gegn Standard Liege,“ sagði Benitez. „Ég veit samt að við höfum gott lið og eigum ekki að falla út í forkeppni Meistaradeildarinnar.“

Nokkur óvissa hefur verið um framtíð Xabi Alonso, Sami Hyypia og Jermaine Pennant og hefur heyrst af áhuga Blackburn á þeim síðast nefnda. Ef einhver af þessum leikmönnum, eða einhver annar yfirgefur Liverpool nú mjög snögglega er þá alls ekki loku fyrir það skotið að af kaupum verði á Riera, Barry eða einhverjum allt öðru, ef marka má orð knattspyrnustjórans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert