Ronaldo: Aldrei upplifað neitt þessu líkt

Ronaldo segist aldrei hafa verið jafnlengi frá fótbolta.
Ronaldo segist aldrei hafa verið jafnlengi frá fótbolta. Reuters

Portúgalski snillingurinn Ronaldo, leikmaður Manchester United, er á góðum batavegi eftir aðgerð á ökkla sem hann fór í í byrjun júlí. Sir Alex Ferguson, stjóri United, segist búast við að Ronaldo verði aftur klár í slaginn í byrjun október en Ronaldo er þegar byrjaður að skokka og virðist ætla að ná sér fyrr en ætlað var í fyrstu.

„Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt, að eyða tveimur mánuðum án þess að sparka í bolta. Ég vil bara ná fullri heilsu aftur,“ sagði Ronaldo í samtali við portúgölsku sjónvarpsstöðina SIC.

„Ég er ekki vanur því að vera utan vallar. Mér finnst þetta mjög leitt en versti kaflinn er afstaðinn og ég veit vel að ég þarf að vera þolinmóður. Mér liður vel og bráðum get ég farið að sparka bolta. Að spila fótbolta er það sem gerir mig hamingjusaman,“ sagði Ronaldo, sem vonast til að geta snúið aftur strax í næsta mánuði.

Held að ég geti unnið núna

Hann er talinn líklegastur í valinu á knattspyrnumanni ársins eftir frábæra leiktíð með United síðastliðinn vetur þar sem félagið varð bæði Englands- og Evrópumeistari, og Ronaldo markahæstur í liðinu.

„Ég held að síðasta leiktíð hafi verið mjög góð hjá mér. Það yrði algjör draumur að verða fyrir valinu en ég tel að enginn annar leikmaður hafi gert það sem ég gerði á síðustu leiktíð. Ég held að ég geti unnið núna,“ sagði Ronaldo.

Fyrir þá sem eru sleipir í portúgölsku má nálgast viðtalið við Ronaldo hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert