Shaun Wright-Phillips á heimleið

Shaun Wright-Phillips í æfingaleik með Chelsea í síðasta mánuði.
Shaun Wright-Phillips í æfingaleik með Chelsea í síðasta mánuði. Reuters

Enski knattspyrnumaðurinn Shaun Wright-Phillips er á leið aftur í sitt gamla félag, Manchester City, frá Chelsea að því er fram kemur á fréttavef Sky í kvöld. Talið er að félögin hafi komist að samkomulagi um 9 milljóna punda kaupverð, sem samsvarar tæplega 1,4 milljarði íslenskra króna.

Wright-Phillips er sagður munu gangast undir læknisskoðun á morgun en hann mun þó ekki hitta fyrir knattspyrnustjóra City, Mark Hughes, strax þar sem hann verður ásamt liði sínu í Danmörku en City leikur gegn Midtjylland í UEFA-bikarnum annað kvöld.

Ef Wright-Phillips gengur í raðir City má segja að hann sé kominn aftur heim því hann lék með félaginu í yngri flokkum og svo í sex ár með aðalliðinu frá árinu 1999. Chelsea keypti hann síðan fyrir 21 milljón punda svo þessi 26 ára gamli leikmaður hefur fallið nokkuð í verði ef satt reynist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert