Arsenal var ekki í vandræðum með að sigra Twente frá Hollandi, 4:0, í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í kvöld.
Arsenal sigraði þar með 6:0 samanlagt og tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Samir Nasri kom Arsenal yfir á 27. mínútu, William Gallas bætti við öðru marki á 52. mínútu og Theo Walcott skoraði, 3:0, á 66. mínútu. Það var svo danski framherjinn Nicklas Bendtner sem innsiglaði sigurinn, 4:0, einni mínútu fyrir leikslok.
Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, þjálfar Twente og Bjarni Þór Viðarsson er leikmaður hjá félaginu en hann er frá vegna meiðsla framá haustið.