Vidic segir ranglega haft eftir sér

Vidic í baráttu við Jermain Defoe í leik um Samfélagsskjöldinn …
Vidic í baráttu við Jermain Defoe í leik um Samfélagsskjöldinn á dögunum. Reuters

Serbneski varnarmaðurinn Nemanja Vidic, leikmaður Manchester United, segir ranglega haft eftir sér í fréttum sem birst hafa í ýmsum miðlum í dag þar sem hann er sagður ósáttur við lífið í Manchester-borg.

Fréttirnar eru byggðar á viðtali hans við rússneska blaðið Football Weekly en Vidic segir margt af því sem þar birtist vera tekið út úr samhengi eða einfaldlega rangt.

Í blaðinu er m.a. haft eftir honum að Englendingar kunni ekki að njóta lífsins og að vinsælasti staðurinn í Manchester sé lestarstöðin þar sem hægt sé að komast til borga þar sem rigni sjaldnar. Þá er hann sagður óhamingjusamur í Manchester-borg og að hann vilji fara til Spánar.

„Ég vil koma því alveg á hreint að ég sagði ekki þessa hluti. Ég talaði um erfiðleikana þegar ég var að koma mér fyrir í Manchester, en það endurspeglar ekki hvernig mér líður núna,“ sagði Vidic í yfirlýsingu sem birt er á opinberri heimasíðu Manchester United, manutd.com.

„Ég nýt þess að leika fótbolta með Manchester United og ég er hæstánægður með að vera hluti af þessu frábæra félagi. Ég held að það sýni sig í því hvernig ég spila í hverri viku. Einnig ber ég allt of mikla virðingu fyrir íbúum Manchester-borgar, og Englands, til að gagnrýna þá með þessum hætti,“ sagði Vidic.

Yfirlýsingin á manutd.com.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert