Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir ósigurinn gegn Zenit St. Pétursborg í leiknum um Stórbikar Evrópu í kvöld að rússneska liðið hefði burði til að ná langt í Meistaradeild Evrópu í vetur.
„Zenit er mjög gott lið og með mjög hreyfanlega leikmenn. Með svona spilamennsku munu þeir verða afar öflugir í Meistaradeildinni. Ég tel að við höfum sýnt okkar bestu hliðar eftir að við lentum 2:0 undir og mér fannst Tévez frábær, sennilega besti maður vallarins. Við fengum tækifæri til að ná betri úrslitum. Það var heitt í kvöld og miðað við aðstæður stóðu mínir menn sig vel," sagði Ferguson við fréttamenn eftir leikinn.
Vegna leiksins var leik Manchester United við Fulham í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar frestað.