Louis Saha á leið til Everton

Louis Saha er á leið til Everton.
Louis Saha er á leið til Everton. Reuters

Franski knattspyrnumaðurinn Louis Saha sem hefur leikið með Manchester United undanfarin ár er á leið til Everton. Hann á aðeins eftir að gangast í gegnum læknisskoðun áður en gengið verður formlega frá kaupunum á honum.

Saha er þrítugur og hefur leikið með United í hálft fimmta ár en hann var keyptur af Fulham í ársbyrjun 2004 fyrir 12,8 milljónir punda. Hann hefur skorað 42 mörk fyrir United, þar af 28 í 86 leikjum í úrvalsdeildinni, en misst mikið úr vegna meiðsla.

Saha verður þriðji leikmaðurinn sem Everton fær á skömmum tíma en áður höfðu Lars Jacobsen og Segundo Castillo bæst í hópinn á Goodison Park.

Louis Saha hefur spilað 18 landsleiki fyrir Frakkland og skorað í þeim 4 mörk. Hann lék með Metz til ársins 2000, var reyndar hálft tímabil í láni hjá Newcastle, en fór síðan til Fulham árið 2000 og lék þar í fjögur ár. Þar  gerði Saha 53 deildamörk í 117 leikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert