City með tilboð í Villa og Gomez

David Villa var markahæstur á EM í sumar þegar Spánn …
David Villa var markahæstur á EM í sumar þegar Spánn varð Evrópumeistari. Reuters

Nýir eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City, eigendur fjárfestingasjóðsins Abu Dhabi United Group, ætla greinilega að nýta þennan síðasta dag í bili sem að félagaskiptaglugginn er opinn. City hefur boðið 30 milljónir punda í Dimitar Berbatov, sem var samþykkt, og félagið hefur einnig boðið í David Villa og Mario Gomez.

Þetta kemur fram á fréttavef ESPN í dag. Dr Sulaiman Al-Fahim, einn hinna nýju eigenda City, segist vongóður um að kaupin á Berbatov geti gengið í gegn í dag en Manchester United er einnig á höttunum eftir honum.

„Ég er vongóður um að klófesta Berbatov en ég þarf að tala við félaga mína í Englandi til að vita hvernig málin standa. Við höfum boðið í þrjá leikmenn. Það er Berbatov og einnig David Villa og Mario Gomez en við bíðum enn eftir að heyra hvort þau tilboð verði samþykkt. Peningarnir eru til staðar og svona tilboð sýna að okkur er alvara,“ sagði Al-Fahim.

David Villa hefur verið eftirsóttur síðustu ár en Valencia hefur ekki viljað selja hann þrátt fyrir há kauptilboð frá Real Madrid. Mario Gomez var sjóðheitur í framlínu Stuttgart á síðustu leiktíð og skoraði 22 mörk í þýsku deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert