Úkraínski framherjinn Andriy Voronin er farinn frá Liverpool en hann hefur verið lánaður til þýska liðsins Hertha Berlin út þessa leiktíð. Þá er bakvörðurinn Steve Finnan búinn að yfirgefa Liverpool en hann er búinn að semja við spænska liðið Espanyol.
Voronin gekk í raðir Liverpool fyrir einu ári síðan og hefur skorað 6 mörk í 27 leikjum með liðinu en hann hefur ekki fengið tækifæri á þessari leiktíð.
Finnan átti ekki lengur upp á pallborðið hjá Rafael Benítez og hann hefur nú gert tveggja ára samning við Espanyol en nokkur lið úr ensku úrvalsdeildinni voru að falast eftir Íranum. Finnan hefur verið í herbúðum Liverpool í fimm ár og hefur spilað um 150 leiki með liðinu.