Berbatov: Spila ekki fyrir peningana

Berbatov verður í treyju númer níu í stað Louis Saha …
Berbatov verður í treyju númer níu í stað Louis Saha sem farinn er til Everton. Reuters

Búlgarski sóknarmaðurinn Dimitar Berbatov, sem keyptur var í gær til Manchester United fyrir 4,6 milljarða króna, segist hafa valið United fram yfir Manchester City því hann telji United vera stærsta félag í heimi. Hann vonast til að spila strax í næsta leik sem er gegn Liverpool 13. september.

„Ég er ekki að spila fyrir peningana,“ sagði Berbatov í samtali við MUTV-sjónvarpsstöðina.

„Þeir sem þekkja mig vel vita að ég nýt þess að spila og vil skemmta stuðningsmönnunum. Ef ég myndi vilja spila fyrir peningana myndi ég semja við Manchester City eða Chelsea, en rauða treyjan hefur mikla þýðingu fyrir mig. Ég vil spila fyrir stærsta félag heims. Þess vegna er ég hér,“ sagði Berbatov, og hann getur vel hugsað sér að enda ferilinn á Old Trafford.

„Ég er orðinn 27 ára gamall. Ég er hjá stærsta félagsliði heims og kannski þetta verði síðasta skrefið sem ég tek á mínum ferli,“ sagði Berbatov.

Berbatov er nú að undirbúa sig fyrir landsleiki með Búlgaríu en næsti leikur United er stórleikur við erkifjendurna í Liverpool þann 13. september. Berbatov er hvergi banginn og vill ólmur spila þann leik.

„Mig langar verulega til að spila þennan leik. Ég lifi fyrir stóru leikina og ég held að þessi sé sá stærsti. Ég get ekki beðið eftir að fá að spila,“ sagði Berbatov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert