Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester United gat ekki leynt gleði sinni þegar hann tók í höndina á búlgarska sóknarmanninum Dimitar Berbatov seint í gærkvöldi en þá lauk sögunni endalausu þegar Berbatov skrifaði undir fjögurra ára samning við meistarana.
Kaupverðið var tæpar 31 milljón punda, 4,6 milljarðar króna, og United lánar Tottenham sóknarmanninn unga Frazier Campbell út leiktíðina.
„Það var lykilatriði fyrir okkur að ná þessum samningi. Dimitar er einn besti og mest spennandi framherjinn í fótboltaheiminum í dag og ég er viss um að hann verði vinsæll leikmaður hjá okkar stuðningsmönnum,“ sagði Sir Alex.
Sjálfur var Berbatov himinlifandi. ,,Að ganga í til liðs við Manchester United er draumur sem er að rætast. Ég er afar spenntur og hlakka til að taka þátt í vinna titla með félaginu á komandi árum,“ sagði Berbatov.