Curbishley hættur hjá West Ham

Alan Curbishley er hættur hjá West Ham.
Alan Curbishley er hættur hjá West Ham. Reuters

Alan Curbishley er óvænt hættur sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham eftir að hafa stýrt liðinu frá því í desember 2006. Ástæðan er talin vera ósætti vegna sölu á leikmönnum.

Fréttaskýrendur Sky-fréttastofunnar segja Curbishley hafa verið afar ósáttan við söluna á Anton Ferdinand og George McCartney til Sunderland, og er jafnvel talið að þeir hafi verið seldir án hans vitundar. Þetta hafi Curbishley ekki getað sætt sig við og því ákveðið að segja skilið við Hamrana.

Á opinberri heimasíðu West Ham er reynt að réttlæta söluna í yfirlýsingu þar sem fram kemur að ekki hafi náðst samkomulag við Ferdinand um nýjan samning og að McCartney hafi sjálfur óskað eftir því að vera seldur.

Curbishley tók við stjórn West Ham af Alan Pardew í desember 2006. Hann stýrði liðinu í 71 leik og sigraði West Ham í 28 þeirra. Liðið hafnaði í 10. sæti í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en tímabilið á undan bjargaði það sér á ævintýralegan hátt frá falli.

West Ham, sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, hefur byrjað vel í deildinni og unnið tvo af fyrstu þremur leikjunum en Curbishley stjórnaði liðinu í síðasta sinn á laugardaginn þegar liðið vann góðan 4:1 sigur á Blackburn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka