Ítalinn Paolo Di Canio hefur sett sig í samband við West Ham og vill gjarnan taka við knattspyrnustjórastarfi hjá félaginu í stað Alan Curbishley sem hætti störfum hjá Íslendingaliðinu í gær.
Di Canio, sem er 40 ára gamall, er í miklum metum hjá stuðningsmönnum West Ham eftir að hafa spilað í fjögur ár með liðinu.
„Við höfum talað við menn frá West Ham og tjáð þeim að Di Canio vilji gjarnan fá tækifæri til að taka við starfinu,“ sagði Phil Spencer, umboðsmaður Di Canio við breska ríkisútvarpið, BBC.
,,Hann hefði ekki boðið sig starfans nema ef honum fyndist hann vera fær um að gera gera það,“ sagði Spencer er fjölmargir hafa verið orðaðir við starfið og er Di Canio einn þeirra.
Harry Redknapp, Slaven Bilic og Stuart Pearce hafa allir gefið frá sér starfið en þeir meðal þeirra sem hafa verið nefndir á nafn sem hugsanlegir eftirmenn Curbishleys.
Di Canio lék 119 leiki með West Ham en hann var keyptur frá Sheffield Wednesday árið 1999 og var fljótt vinsæll á meðal stuðningsmanna West Ham enda frábær fótboltamaður sem gat töfrað fram ýmislegt á knattspyrnuvellinum.