Kevin Keegan hefur sagt starfi sínu lausu sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle. Afsögnin hefur legið í loftinu síðustu daga en Keegan hefur verið fjarri góðu gamni á æfingum liðsins upp á síðkastið.
Keegan hefur fundað ásamt stjórn félagsins síðustu daga en fregnir af því að hann hygðist hætta tóku að berast á mánudaginn. Newcastle neitaði því í kjölfarið að hann hefði verið rekinn en nú er orðið ljóst að Keegan hættir að eigin vilja.
Keegan tók sér góða pásu eftir að hafa stýrt Manchester City til ársins 2005, en tók svo óvænt við Newcastle um miðja síðustu leiktíð. Þetta er í annað sinn sem Keegan hættir hjá Newcastle því það gerði hann einnig árið 1997.
Keegan er þar með annar stjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem segir starfi sínu lausu á leiktíðinni, sem er nýhafin, því Alan Curbishley hætti hjá West Ham í gær. Athygli vekur að í báðum tilvikum var frumkvæðið stjóranna sjálfra.