McCartney óhress með stjórn West Ham

George McCartney, til vinstri, er ekki hress með stjórnendur West …
George McCartney, til vinstri, er ekki hress með stjórnendur West Ham. Reuters

George McCartney, norður-írski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, sagði í viðtali á BBC í dag að hann væri ósáttur við stjórnendur enska knattspyrnufélagsins West Ham, sem á dögunum seldu hann til Sunderland gegn vilja þáverandi knattspyrnustjóra, Alans Curbishleys.

McCartney sagði að það væri rangt sem forráðamenn West Ham hefðu birt á vef félagsins en þar kom fram að hann hefði lagt inn skriflega beiðni um að vera seldur til Sunderland. Curbishley tilkynnti McCartney að ekkert yrði af því að hann færi þangað en nokkrum dögum síðar var gengið frá sölu varnarmannsins.

„Sunderland gerði tilboð í mig í síðustu viku en West Ham hafnaði því. Ég hitti stjórann og sagði honum að fjölskyldu minni liði ekki vel í London og af þeim sökum væri ég að vonast eftir því að geta flutt aftur norður. En stjórinn sagði nei, á mjög afgerandi hátt, og tilkynnti mér að ég yrði um kyrrt hjá West Ham og félagið myndi ekki taka tilboði í mig.

Síðan var hringt í mig á sunnudaginn og mér sagt að tilboði hefði verið tekið og þar með varð ég að drífa mig norður. Ég sá síðan á vef West Ham að ég hefði lagt inn skriflega beiðni um að vera seldur. Það gerði ég aldrei. Þetta voru fjölskylduástæður og ég skrifaði aldrei neina slíka beiðni. Félagið er í svo slæmum málum sem stendur að forráðamennirnir eru að reyna að láta þetta líta vel út í augum stuðingsmannanna. Það er skrýtið ástand hjá West Ham og það veit enginn í raun og veru hvað gengur á hjá stjórn félagsins," sagði McCartney.

Eins og flestir vita væntanlega er West Ham í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert