Carlos Tevez, framherji Manchester United og argentínska landsliðsins, hefur beðist afsökunar á því að hafa fengið að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik í leik Argentínumanna og Paragvæa í undankeppni HM um helgina en þetta var annað rauða spjald hans í síðustu þremur leikjum Argentínu.
Tevez fékk áminningu á 16. mínútu en fékk svo beint rautt spjald fyrir gróft brot á leikmanni Paragvæa stundarfjórðungi síðar.
„Ég er leiður því ég skildi eftir liðsfélaga mína 10 eftir á vellinum aftur. Í fyrra brotinu hefði dómarinn getað vísað mér af velli en báðar tæklingarnar voru glórulausar og alveg út hött af minni hálfu,“ sagði Tevez í viðtali við argentínska sjónvarpsstöð í kvöld.
„Ég bað samherja mína afsökunar en þeir sögðu að ég þyrfti ekkert að gera. Ég get fundið ástæðu fyrir því sem ég gerði. Leikurinn var rólegur og mér fannst eins og þetta yrði leikurinn minn,“ sagði Tevez, sem verður í banni þegar Argentínumenn mæta Perúmönnum á miðvikudaginn.