Lögreglan í Newcastle er við öllu búin þegar Newcastle tekur á móti Hull á laugardaginn. Stuðningsmenn liðsins hyggjast láta Mike Ashley eiganda félagsins heyra það en þeir eru mjög ósáttir með þá niðurstöðu að Kevin Keegan ákvað að segja starfi sínu lausu sem knattspyrnustjóri liðsins.
Stuðningsmennirnir kenna Ashley um að Keegan sé horfinn á braut en Keegan ákvað að segja skilið við félagið vegna ítrekaðra afskipta stjórnar Newcastle í leikmannamálum.
Lögreglumönnum sem verða á vakt á leiknum verður fjölgað en lögreglan vonast til að mótmæli stuðningsmannanna verði friðsæl svo ekki þurfi að koma til átaka.
Ashley klæðist ávallt Newcastle búningnum á leikjum liðsins og á það til að sitja hjá stuðningsmönnunum en hvort hann leggur í það á laugardaginn er óvíst.