George Peat, formaður skoska knattspyrnusambandsins, segir ekki koma til greina að Skotland verði hluti af liði Stóra-Bretlands á Ólympíuleikunum í London 2012.
„Það er fullt af fólki, þar á meðal forsætisráðherrann, sem hefur áhuga á þessu. En ég get sagt að það er engin vilji fyrir því hjá okkur að verða hluti af sameiginlegu liði, segir Peat í samtali við BBC.
Hann segir skoska sambandið hafa ákveðið þetta strax á fyrsta degi, en nokkuð er um liðið síðan hugmyndin kviknaði. „Við munum þrjóskast við eins lengi og ég er hér í stjórn,“ sagði hann.
Enska knattspyrnusambandið hefur áhuga á að vera með sameiginlegt lið á Ólympíuleikum, líkt og var fram til ársins 1964. Sepp Blatter, forseti FIFA, var í Skotlandi ekki alls fyrir löngu og var þá á sama máli og Peat.
„Við skýrðum okkar afstöðu og hann virtist fylgjandi henni á meðan hann var hérna í Skotlandi, en síðan breyttist það þegar hann fór. En menn skulu hafa í huga að Blatter verður trúlega ekki í sömu stöðu og hann er núna árið 2012 og það er framkvæmdastjórn FIFA sem tekur svona ákvarðanir, ekki hann,“ sagði Peat.