Steve Clarke, sem hefur verið aðalþjálfari enska knattspyrnuliðsins Chelsea um árabil, hefur sagt upp störfum hjá félaginu og Íslendingafélagið West Ham hefur óskað eftir því að fá að ræða við hann. Samkvæmt BBC vill Gianfranco Zola, nýr knattspyrnustjóri West Ham, fá Clarke sér við hlið.
Í yfirlýsingu frá Chelsea er staðfest að West Ham hafi farið þess á leit að fá að ræða við Clarke en það leyfi hafi ekki verið veitt. Clarke hafi látið í ljós ósk um að hætta störfum hjá félaginu en uppsögn hans hafi ekki verið samþykkt og viðræður séu í gangi.
Steve Clarke er 45 ára gamall Skoti sem lék með Chelsea í ellefu ár, frá 1987 til 1998, samtals um 330 deildaleiki, og spilaði 6 landsleiki fyrir Skotland. Hann var aðstoðarmaður Ruuds Gullits hjá Newcastle 1998-1999 og stýrði liðinu um skeið eftir að Gullit var rekinn þaðan. Hann gerðist síðan unglingaþjálfari hjá Chelsea og þegar José Mourinho var ráðinn knattspyrnustjóri félagsins gerði hann Clarke að sínum aðalþjálfara og helsta aðstoðarmanni.