Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur staðfest að þýski miðjumaðurinn Michael Ballack sé tilbúinn í slaginn eftir þriggja vikna fjarveru og muni taka þátt í leik liðsins gegn Bordeaux í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.
Ballack meiddist á fæti í leik Chelsea gegn Wigan þann 24. ágúst og hefur ekki spilað síðan. "Hann mun spila en hvort það verður í 45, 60 eða 70 mínútur veit ég gekki ennþá," sagði Scolari við fréttamenn.
Þá er Didier Drogba líka orðinn leikfær en hann lék sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar Chelsea vann Manchester City, 3:1, á laugardaginn og spilaði í 20 mínútur.