Chelsea og West Ham náðu nú síðdegis samkomulagi um að Steve Clarke er frjálst að yfirgefa Chelsea og ganga til liðs við West Ham þar sem hann verður aðstoðarmaður Gianfranco Zola, nýráðins knattspyrnustjóra Íslendingaliðsins.
Upphaflega krafðist Chelsea að fá 5 milljónir punda fyrir að leysa Clarke undan samningi en að því er fram kemur á fréttavef breska blaðsins Daily Mail mun West Ham punga út 1 milljón punda fyrir að fá Clarke.
Þrýstingur var á forráðamenn Chelsea að leyfa Clarke að fara og ekki síst eftir að Frank Lampard lýsti því yfir að rétt væri að heimila Clarke að yfirgefa liðið en Skotinn hefur verið hjá Chelsea í 20 ár, fyrst sem leikmaður og síðan þjálfari.
Zola tók formlega til starfa hjá West Ham í dag og stjórnaði sinni fyrstu æfingu en liðið leikur sinn fyrsta leik undir hans stjórn á laugardaginn þegar það fær Newcastle í heimsókn.